Verslanasamstæðan Hagar hagnaðist um rétt tæpa 1,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Þetta er talsverður bati frá árinu á undan þegar hagnaðurinn nam 787 milljónum króna. Þetta jafngildir 137% aukningu á milli ára.

Afkoman jafngildir 1,59 króna hagnaði á hlut Haga samanborið við 67 aurum ári fyrr.

Rekstrarárinu lýkur í enda mars hjá Högum.

Fram kemur í árshlutauppgjöri Haga að tekjur breyttust lítið á milli ára. Þær námu 49,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs samanborið við tæpa 49,2 milljarða árið á undan.

Breytt afkoma skýrist að mestu af verulega lægri fjármagnsgjöldum í fyrra en árið á undan. Þau námu 650 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs samanborið við rúma 1,7 milljarða árið á undan.

Í uppgjörinu kemur fram að eignir Haga námu rúmum 24,6 milljörðum króna í lok nóvember í fyrra samanborið við 21,8 milljarða níu mánuðum fyrr. Þá nam eigið fé samstæðunnar rétt tæpum 5,7 milljörðum króna samanborið við rúma 3,6 milljarða í febrúar í fyrra þegar rekstrarárið hófst. Eiginfjárhlutfall Haga nam 23,1% í lok nóvember samanborið við 16,5% við upphaf rekstrarársins.

Uppgjör Haga