*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 17. júlí 2021 17:03

Hagnaður hjá Bláfugli

Tekjur fraktflugfélagsins Bláfugls drógust saman um tæp 40% milli ára og námu 3,3 milljörðum króna á síðasta ári.

Ritstjórn
Sigurður Örn Ágústsson er forstjóri Bláfugls
Eyþór Árnason

Fraktflugfélagið Bláfugl skilaði 99 þúsund evra hagnaði, jafnvirði 15 milljónum króna, á síðasta ári en félagið tapaði 141 milljón árið áður. Tekjur félagsins námu 3,3 milljörðum, samanborið við 5,2 milljarða árið 2019. Þetta kemur fram í ársreikningi litháíska móðurfélagsins Avia Solutions sem tapaði um 10 milljörðum króna árið 2020.

Avia Solutions keypti Bláfugl á tæplega 800 milljónir króna af BB Holding ehf. í lok mars á síðasta ári. Viðskiptablaðið sagði frá því að auk kauðverðsins hafi megnið af lausafé samstæðu Bláfugls verið greitt út í arð til BB Holding en arðgreiðslan nam 9,9 milljónum dollara, jafnvirði um 1,4 milljarða króna miðað við þáverandi gengi.

Steinar Logi Björnsson, sem var forstjóri Bláfugls, á 50% hlut í BB Holding en hin 50% eru í eigu sömu aðila og eiga flugfélagið Air Atlanta. Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Air Atlanta, á 25% í BB Holding, Geir Valur Ágústsson, fjármálastjóri Atlanta, á 15% hlut og þá eiga Stefán Eyjólfsson og Helgi Hilmarsson 5% hvor um sig en þeir eru báðir framkvæmdastjórar hjá Atlanta.

Stikkorð: Bláfugl Avia Solutions