Hagnaður samheitalyfjafyrirtækisins Invent Farma ehf. var um 7,3 milljónir evra eftir skatta á síðasta ári, eða um 1,2 milljarðar króna. Hagnaðurinn jókst um rúmlega 50% frá fyrra ári. Framtakssjóður Íslands (FSÍ) eignaðist 60% hlut í félaginu í ágúst síðastliðnum. Þá var aðeins greint frá hagnaði félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) og tilgreint að félagið væri í góðum rekstri. Að sögn Friðriks Steins Kristjánssonar, stjórnarmanns í Invent Farma og eiganda 32% hlutafjár, munu nýir eigendur taka við rekstrinum í byrjun næsta mánaðar en þá verðurný stjórn kjörin.

Starfsemi Invent Farma er alfarið erlendis, nánar tiltekið á Spáni. Fyrirtæki í eigu íslenska félagsins eru fjögur talsins og fást við þróun, framleiðslu og sölu lyfja. Áður en FSÍ eignaðist 60% hlutafjár voru hluthafar 24 talsins.

Þeir voru flestir keyptir út en Friðrik Steinn heldur áfram um sína hluti, samtals 32%. Í kjölfar fjárfestingarinnar greindi Viðskiptablaðið frá því að kaupverð hlutarins hafi verið um 60 milljónir evra, jafnvirði um 10 milljarða króna. FSÍ hefur ekki viljað greina frá kaupverðinu. Árs- og samstæðureikningi Invent Farma var skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra í lok september en hann var samþykktur af stjórn félagsins í júní síðastliðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .