Hagnaður Íslandssjóða, sem er í eigu Íslandsbanka og rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nam á fyrri hluta þessa árs 127 milljónum króna eftir skatta, samanborið við 98 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir skatta nam 159 milljónum króna, samanborið við 123 milljónir króna í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Íslandssjóða sem birt var í morgun en samkvæmt þessu hefur hagnaðurinn aukist um 30% á milli ára.

Hreinar rekstrartekjur námu 568 milljónum króna, samanborið við 541 milljón króna fyrir sama tímabil árið áður og jukust því um 5% á milli ára. Mestu munar í auknum gengismun, sem jókst um 21 milljón á milli ára en umsýsluþóknun dróst lítillega saman, eða um 2 milljónir króna á milli ára. Þá drógust fjármunatekjur saman um 20 milljónir króna á milli ára.

Rekstrargjöld námu 409 milljónum króna, samanborið við 419 milljónir króna árið áður og drógust því saman um 2,4% á milli ára. Laun og starfsmannakostnaður jókst þó um 18 milljónir króna á milli ára og nam 101 milljón króna á fyrri hluta ársins. Hins vegar dróst annar rekstrarkostnaður saman um 80 milljónir króna á milli ára og nam aðeins 11 milljónum á fyrri hluta ársins.

Heildareignir félagsins 30. júní 2012 námu 3.166 milljónum króna en voru 2.854 milljónir króna í árslok 2011. Eigið fé 30. júní 2012 nam 1.794 milljónum króna en var 1.741 milljón krónur í árslok 2011. Eiginfjárhlutfall félagsins var 160,5% í lok júní, en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Í uppgjörinu kemur fram að í lok júní voru 19 sjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 110.100 milljónum króna samanborið við 112.890 milljónir í lok árs 2011. Þar af eru 15 verðbréfasjóðir með hreina eign að upphæð 100.972 milljónir króna og 4 fjárfestingarsjóðir með hreina eign að upphæð 9.128 milljónir króna. Einn sjóður sem skráður er í Lúxemborg er í stýringu félagsins.

Á árinu tóku Íslandssjóðir yfir rekstur og stýringu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Rekstrarfélags Byrs. Um var að ræða sjóðina Skuldabréfasjóðinn, Alþjóða virðissjóðinn og Alþjóða vaxtarsjóðinn, auk Fyrirtækjasjóðsins sem er í slitaferli. Við þessa yfirtöku jukust eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum um 2.292 milljónir eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Í lok júní 2012 störfuðu 15 starfsmenn hjá Íslandssjóðum. Framkvæmdarstjóri félagsins er Agla Elísabet Hendriksdóttir.

Agla Elísabet Hendriksdóttir
Agla Elísabet Hendriksdóttir
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Agla Elísabet Hendriksdóttir