*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 25. mars 2020 15:15

Hagnaður Landsbréfa dróst saman um 42%

Lægri árangurstengdar þóknanir framtakssjóða höfðu töluverð áhrif á rekstur Landsbréfa á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréf, dótturfélags Landsbankans nam 489 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 42% milli ára. 

Hreinar rekstrartekjur námu 1.683 milljónum og drógust saman um 17% en þar af námu umsýslu- og árangurstengdar þóknanir 1.399 milljónum og drógust saman um 27% milli ára. Í ársreikningi segir að minni tekjur milli ára helgist aðallega af því að vægi árangurstengdra þóknana af rekstri framtakssjóða var mun minna á árinu 2019 en árið áður.

Eignir í stýringu námu 180 milljörðum króna í árslok og jukust um 25 milljarða á milli ára. 

Í skýrslu stjórnar segir að það sé ljóst að Landsbréf muni ekki fara varhluta af áhrifum COVID-19 sem hefur haft áhrif á ávöxtun á öllum mörkuðum og þar af leiðandi geti sveiflur í ávöxtun sjóða Landsbréfa orðið óvenjumiklar á árinu 2020. Þá segir einnig að fjárhagsleg áhrif á rekstur Landsbréfa verði einhver, þar sem búist megi við að samdráttur verði í tekjum félagsins á árinu og að ávöxtun eignasafnsins geti orðið neikvæð. 

Stikkorð: Landsbréf