Stoðtækjafyrirtækið Össur skilaði 13 milljóna dala hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Þetta jafngildir tæpum 1,6 milljörðum íslenskra króna og 28% meira en á þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar hagnaður fyrirtækisins nam 10 milljónum dala.

Fram kemur í uppgjöri Össurar að sala nam 105 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi samanborið við 99 milljónir dala í fyrra. Söluvöxtur nam 5%, þar af var 3% innri vöxtur, hvortveggja mælt í staðbundinni mynt.

Framlegð nam 65 milljónum Bandaríkjadala og 62% af sölu samanborið við 62 milljónir Bandaríkjadala og 63% af sölu á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIDTA) nam 22 milljónum Bandaríkjadala og 21% af sölu samanborið við 18 milljónir dala og 19% af sölu á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af sölu var 45% samanborið við 47% á sama fjórðungi í fyrra og hafi aðhaldsaðgerðir sem farið var í á öðrum ársfjórðungi skilað nú þegar tilætluðum árangri.

Í uppgjörinu kemur fram að sala á spelkum og stuðningsvörum jókst um 6% á milli ára en sala á stoðtækjum jókst um 5%.

Þá segir í uppgjörinu að sala í EMEA var góð og sýndu öll landsvæði góðan vöxt. Bandaríkjamarkaður sýnir jákvæð merki, en áfram er gert ráð fyrir óvissu á þeim markaði.

Þá gekk Össur um mánaðamótin frá kaupum á sænska fyrirtækinu TeamOlmed, sem voru tilkynnt 21. maí 2013 auk þess sem gengið var frá kaupum á tveimur minni háttar fyrirtækjum á fjórðungum.

Uppgjör Össurar