*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 26. júlí 2018 08:51

Hagnaður Össurar eykst um helming

Össur hagnaðist um 2,1 milljarð íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi sem nemur um 12% af sölu sem jókst um 9%.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður Össurar nam 20 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 2,1 milljarði íslenskra króna, sem er aukning um 49% frá sama tímabili í fyrra.

Hagnaðurinn nemur 12% sölu, en á öðrum ársfjórðungi 2018 nam hún 158 milljónum Bandaríkjadala, eða 16 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 9% vexti og 6% innri vexti. Innri vöxtur í stoðtækjarekstri var 7% og sala í spelkum og stuðningsvörum jókst um 4%. Söluvöxtur var einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins.

EBITDA félagsins nam 32 milljónum Bandaríkjadala, eða 3,3 milljörðum íslenskra króna, sem nemur 20% af sölu. Á sama tímabili í fyrra var hlutfallið 19%, svo það jókst um 15% í staðbundinni mynt milli ára. Aukning í EBITDA framlegð er tilkominn vegna aukinnar sölu á hátæknivörum og stærðarhagkvæmni í rekstri.

Áætlun félagsins fyrir árið 2018 er óbreytt eða 4-5% innri vöxtur, ~19% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, ~4% fjárfestingarhlutfall og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%.

Gengur vel í lausnum við slitgigt

Jón Sigurðsson, forstjóri segir að eftir hæga byrjun á árinu, hafi niðurstaða annars ársfjórðungs í samræmi við væntingar, með góðum vexti í sölu og hagnaði. „Sala á hátæknivörum okkar gengur vel í bæði stoðtækjum sem og spelkum og stuðningsvörum, þar með talin tölvustýrð stoðtæki og lausnir fyrir fólk sem þjáist af slitgigt,“ segir Jón.

„Í Evrópu og Asíu var góður vöxtur í sölu en vöxtur í Ameríku var hægur á spelkum og stuðningsvörum. Aukinn hagnaður í fjórðungnum er niðurstaða af stærðarhagkvæmni í rekstri og sölu á hátæknivörum.“