Hagnaður Össurar á síðasta ári nam 38 milljónum dala, andvirði um 4,8 milljörðum króna, samanborið við 35 milljóna dala hagnað árið 2011. Aukinn hagnaður er að mestu tilkominn vegna minni fjármagnskostnaðar. Í tilkynningu frá félaginu segir að söluvöxtur á árinu hafi verið 3%, mælt í staðbundinni mynt, sem sé í takt við áætlun félagsins um 2%-3% vöxt. Heildarsala nam 399 milljónum dala í fyrra, en var 398 milljónir dala árið 2011.

Í tilkynningunni segir að söluvöxtur í stoðtækjum hafi verið 4% og söluvöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 3%, hvort tveggja mælt í staðbundinni mynt.

Framlegð var stöðug, að því er segir í tilkynningu Össurar. Framleiðslan í Mexíkó hafi haft jákvæð áhrif sem og önnur skilvirkniverkefni innan framleiðsludeildar, en slök sala á stoðtækjum í Bandaríkjunum hafði neikvæð áhrif. Framlegðin nam 248 milljónum Bandaríkjadala eða 62% af sölu, sem er sama hlutfall og árið 2011. EBITDA nam 70 milljónum Bandaríkjadala eða 18% af sölu og var í takt við áætlun um 18-19%.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, að enn eitt árið hafi gengið mjög vel í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku á meðan markaðsaðstæður í Bandaríkjunum hafi verið erfiðar. Þrátt fyrir miklar sviptingar í endurgreiðslukerfinu í Bandaríkjunum finni hann fyrir áhuga á hátæknivörum fyrirtækisins.