Hagnaður Össurar á öðrum ársfjórðungi nam 8 milljónum Bandaríkjadala, andvirði um 960 milljóna króna á núvirði, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 10 milljónum dala. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir reyndar að sé horft framhjá einskiptiskostnaði hafi hagnaður á öðrum ársfjórðungi í ár numi 12 milljónum dala.

Heildarsala fyrirtækisins nam 106 milljónum dala, en var 103 milljónir dala á sama tímabili í fyrra, sem jafngildir 3% söluvexti, mælt í staðbundinni mynt.

EBITDA nam 15 milljónum Bandaríkjadala og 14% af sölu. Leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði var EBITDA 20 milljónir Bandaríkjadala og 19% af sölu, sem er sama hlutfall og á öðrum ársfjórðungi 2012.

Framlegð nam 65 milljónum Bandaríkjadala sem er 61% af sölu. Leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði er framlegðin 62% sem hlutfall af sölu sem er sama hlutfall og á öðrum ársfjórðungi 2012.

Áður umræddur einskiptiskostnaður kemur til vegna aðhaldsaðgerða, sem sagðar eru ganga samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að þessar aðgerðir spari 5 milljónir Bandaríkjadala 2013 og 8 milljónir Bandaríkjadala á ársgrundvelli 2014. Einskiptiskostnaður í tengslum við þessar aðgerðir fellur til á öðrum ársfjórðungi og nemur 4.5 milljónum dala.