Hagnaður fasteignafélagsins Regins hf. nam 1,3 milljörðum króna árið 2020, sem er 72% lækkun frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu 9,7 milljörðum króna en þar af námu leigutekjur 9,2 milljörðum, sem er lækkun um 1% milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 6,4 milljörðum króna og lækkaði um 5% frá árinu áður.

Bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var um 147 milljarðar króna, samanborið við um 141 milljarð ári fyrr. Matsbreyting á árinu var jákvæð um tæplega 1,5 milljarðar króna.

Vaxtaberandi skuldir námu 90,5 milljörðum króna í lok árs, samanborið við 84.021 m.kr. í árslok 2019. Eiginfjár hlutfall félagsins var 31% í lok árs.

Í lok árs 2020 átti Reginn 115 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 378 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er 96% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Leigutekjur lækkað vegna faraldursins

Í tilkynningu frá félaginu segir að afkoma Regins á síðasta árin sé lituð af þeim aðstæðum sem upp hafi komið í samfélaginu í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Lækkun leigutekna skýrist þannig fyrst og fremst af áhrifum í tengslum við COVID-19 og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.

„Félagið greip á fyrsta ársfjórðungi til aðgerða til að styrkja lausafjárstöðu félagsins og mæta greiðsluerfiðleikum viðskiptavina. Frá síðasta vori hefur félagið unnið í sértækum lausnum með þeim leigutökum sem verða fyrir mestum fjárhagslegum áhrifum vegna COVID-19. Yfirstandandi aðgerðir og sú reynsla sem byggst hefur upp á sl. ári gefur sterkar vísbendingar um hvaða áhrifa gætir í rekstri og eignasafni félagsins. Í lok september lágu fyrir samkomulög við leigutaka sem orðið höfðu fyrir áhrifum vegna COVID-19," segir í tilkynningunni.

Í rekstrarspá félagsins fyrir árið 2021, sem kynnt er samhliða uppgjöri, er áætlað að leigutekjur félagsins á árinu 2021 verði um 10,2 milljarðar króna, en rekstraráætlun tekur til núverandi eignasafns. Þrátt fyrir áhrif COVID-19 eru stjórnendur félagsins bjartsýnir á horfur fram undan.

Fjárhagsstaða félagsins er sögð sterk í tilkynningunni og fjárhagsleg skilyrði vel innan marka lánaskilmála. Vaxtaþekja er þannig 1,9 (skilyrði 1,5) og eiginfjárhlutfall 31% (skilyrði 25%). Í lok tímabilsins var handbært fé 3,6 milljarðar króna auk þess sem félagið hafði aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð ríflega 3,5 milljarða króna í lok tímabilsins.