Hagnaður Símans á öðrum ársfjórðungi nam 798 milljónum króna samanborið við 853 milljónir króna á sama tímabili 2018. Tekjur námu 7.115 milljónum króna miðað við 7.153 milljónir króna á sama tímabili 2018 sem er lækkun upp á 0,5%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA hækkaði um 216 milljónir króna úr 2.386 milljónum króna upp í 2.602 milljónum króna á síðasta fjórðungi sem jafngildir 9,1% hækkun milli tímabila.

EBITDA hlutfallið var 36,6% í lok síðasta ársfjórðungs en var 33,4% á sama tímabili 2018. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.087 milljónum króna á fjórðunginum en var 2.438 milljónir króna á sama tímabili 2018. Vaxtaberandi skuldir námu 16,5 milljörðum króna í lok fjórðungsins en voru 17,2 milljarðar króna í árslok 2018.Hrein fjármagnsgjöld námu 269 milljónum króna en voru 190 milljónir króna á sama tímabili 2018. Fjármagnsgjöld námu 301 milljónum króna og fjármunatekjur voru 46 milljónir króna Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 56,3% í lok fjórðungsins og eigið fé 36,3 milljarðar króna.

„Við erum sátt við uppgjörið og þann stöðuga og fyrirsjáanlega rekstur sem þar gefur að líta,“ er haft eftir Orra Haukssyni framkvæmdastjóra í tilkynningu til Kauphallar Íslands. „EBITDA eykst miðað við sama fjórðung í fyrra auk þess sem myndarleg aukning er í EBITDA frá fyrsta fjórðungi þessa árs, en sá fjórðungur var undir væntingum af ýmsum sökum. Launahækkanir kjarasamninganna komu til framkvæmda við upphaf annars ársfjórðungs og því er mikilvægt að launakostnaður samstæðunnar er lægri á þessum fjórðungi í ár en á sama tímabili í fyrra. Áframhaldandi aðgerðir til að draga úr kostnaði, eins og þær sem var ráðist í við upphaf þessa árs, eru lykilþáttur í að ná fram slíkum sparnaði.

Sala á farsímatækjum dregst saman milli ára sem er í takti við þróun erlendis, neytendur kjósa að eiga símtækin sín lengur en áður. Framlegð af tækjasölu er lág og því hefur þessi þróun lítil áhrif á afkomu samstæðunnar. Tekjur af farsímaþjónustu skipta okkur langtum meira máli en tækjasala, en þær lækka áfram milli ára. Lykilatriði þar er að lækkunin nú er að mestu bundin við heildsölu og reiki, en ekki kjarnarekstur Símans sem er smásala til viðskiptavina á Íslandi. Viðskiptavinum fjölgar, til dæmis er þjónustuleiðin Þrenna í örum vexti, sem gefur góð fyrirheit fyrir næstu misseri. Ekki er lengur stöðugt verðfall á farsímamarkaði, eins og verið hefur mörg undanfarin ár, en samkeppni er þó áfram hörð, sérstaklega á fyrirtækjamarkaðinum.’

Tekjuvöxtur var í upplýsingatækni á fjórðungnum þrátt fyrir þyngra rekstrarumhverfi en fyrr. Enn virðast fyrirtæki fara varlega í að stofna til nýrra verkefna – til dæmis í upplýsingatækni – og samkeppni tæknifyrirtækja um einstaka fyrirtækjasamninga er hörð. Árangur annars ársfjórðungs hjá Sensa er því ánægjulegur, en hefur ekki forspárgildi um tiltekna fjórðunga haustsins og vetrarins. Auk fastra langtímaverkefna Sensa eru ýmis spennandi verkefni í burðarliðnum hjá félaginu,“ segir Orri Hauksson.