Hagnaður kvikmyndaframleiðandans Truenorth þrefaldaðist á síðasta ári miðað við árið 2011. Þetta kemur fram í ársreikningi sem Truenorth skilaði til ársreikningaskrá á föstudag fyrir viku. Hagnaðurinn nam rúmum 44 milljónum árið 2011 en í fyrra var hann 126 milljónir króna.

Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri Truenorth, segir að ástæðan fyrir svo góðri afkomu sé að fyrirtækið hafi á árinu haft fjögur stórverkefni. Þar vísar hún að aðkomu fyrirtækisins að framleiðslu Oblivion, sem Tom Cruise lék í, Secret Life of Walter Mitty, sem Ben Stiller lék í, Noah, sem Russel Crowe og fleiri stórstjörnur léku í, og að síðustu Thor 2.

„Veltan af þeim er bara ansi mikil og þess vegna erum við alltaf að tala um það hvað það skiptir miklu máli að fá þessi verkefni til landsins því þetta eru fullfjármögnuð verkefni sem koma með erlendan gjaldeyri til landsins,“ segir Helga Margrét.

Helga Margrét segir að árið 2012 hafi verið algjört metár en hún segist lítið vilja tjá sig um framhaldið. „Það á svolítið eftir að koma í ljós,“ segir Helga Margrét.