Samanlagður hagnaður félaganna AKSO ehf. og Sindrandi ehf., sem bæði eru í eigu Boga Þórs Siguroddsonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, nam 1.922 milljónum króna á síðasta rekstrarári.

AKSO á og rekur heild- og smásöluverslunina Fagkaup. Tekjur samstæðunnar námu 14,5 milljörðum í fyrra og jukust um tvo milljarða milli ára. Gjöld námu 12,8 milljörðum og jukust um 1,4 milljarða. Endanleg afkoma var 953 milljóna hagnaður sem er tæplega helmingi betra en ári fyrr. Eignir í árslok námu rúmum sjö milljörðum og er eigið fé 3,6 milljarðar.

Eignarhaldsfélagið Sindrandi, sem á meðal annars beint og óbeint hlut í Icelandair, Kviku og Ölgerðinni, hagnaðist um 967 milljónir. Einu tekjur félagsins voru fjármunatekjur en þær námu 971 milljón samanborið við 156 milljónir árið 2019. Hækkunina má að stærstu rekja til stórbættrar afkomu dótturfélaga. Eignir félagsins voru metnar á 4,3 milljarða í ársbyrjun og var eigið fé þess 2,9 milljarðar. Eina skuldin er við tengt félag.