Hagnaður Actavis-samheitalyfjasamstæðunnar jókst um 63,1% á þriðja ársfjórðungi og nam 23,2 milljónum evra, sem samsvarar 1,8 milljörðum íslenskra króna, segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að ársfjórðungurinn er sá besti í sögu Actavis frá upphafi. Actavis segir góða afkomu á þriðja ársfjórðungi megi meðal annars rekja til markaðssetningar nýrra lyfja til þriðja aðila, góðrar sölu á mörkuðum fyrir eigin vörumerki og innkomu Amide, sem Actavis keypti í maí síðastliðinn í uppgjör félagsins. Að auki lækkaði kostnaðarverð seldra vara og sölu- og markaðskostnaður frá öðrum ársfjórðungi.

?Góð afkoma félagsins á fjórðungnum var í samræmi við væntingar okkar og fjárhagsleg markmið sem félagið hefur gefið út. Sérstaklega er þó ánægjulegt að sjá hversu hátt framlegðarstig er á fjórðungnum, sem endurspeglar traustan rekstur félagsins. Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Amide, sem við keyptum í maí á þessu ári, kemur nú að fullu inn í uppgjörið en árangur þess hefur verið einkar góður á árinu. Eftir kaupin á samheitalyfjastarfsemi Alpharma mun staða okkar í Bandaríkjunum styrkjast enn frekar, segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.

Actavis samþykkti að kaupa samheitalyfjastarfsemi Alpharma í október síðastliðnum fyrir 810 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar um 50 milljörðum íslenskra króna.

?Eins og við var búist jókst sala til þriðja aðila á fjórðungnum, auk þess sem sala á eigin vörumerkjum var áfram góð. Við væntum þess að fjórði ársfjórðungur verði góður og að félagið muni ná sínum fjárhagslegu markmiðum fyrir árið í heild sinni og verði með um 26% EBITDA framlegð," segir Róbert.

Hagnaður Actavis fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 48,3 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi ( 3,7 milljarðar íslenskra króna) og var 30% sem hlutfall af veltu og hefur framlegð félagsins hefur aldrei verið hærri. Fyrstu níu mánuði ársins nam EBITDA hinsvegar 96,3 milljónum evra, samanborið við 86,8 milljónir á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur námu 160,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi og jukust um 53,4%. Innri vöxtur nam 24,3%.

Með kaupunum á Amide og Alpharma komst Actavis í hóp fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heimi og er nú með 22% tekna í Norður-Ameríku