Hagnaður þýska bankans Commerzbank á þriðja ársfjórðungi var minni en fjárfestar spáðu. Nettó tekjur félagsins námu 113 milljónum evra samanborið við rúmlega eins milljarðs evra tap á sama tímabili 2009.

Hlutabréfaverð bankans féllu nokkuð í verði við opnun evrópskra markaða í morgun, eða tæplega 1%. Hlutabréf í Commerzbank hafa þó hækkað um 12% á þessu ári.

Í frétt Bloomberg segir að það sé einna helst fjárfestingarbankastarfsemin sem kemur í veg fyrir frekari hagnað bankans. Illa hefur gengið að auka tekjur starfseminnar og drógust saman um 40% á þriðja ársfjórðungi, samanborið við árið 2009.

Commerzbank er annar stærsti lánveitandi Þýskalands.