Hagnaður Deutsche Bank nam 1,24 milljörðum evra (107 milljörðum króna) á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 991 milljónir evra 85,5 milljarða króna) á sama tímabili í fyrra, seme er 25% aukning, segir í frétt Dow Jones.

Hagnaðurinn var yfir væntingum greiningaraðila, en sala á einstökum hlutum og greiðsla á tryggingabótum vegna hryðjuverkaárásanna þann 11. september 2001 eiga þar þátt í, segir í fréttinni.

Talsmenn bankans segjast ánægðir með uppgjörið, útkoman hafi verið góð þrátt fyrir að markaðsaðstæður hafi ekki verið eins góðar og á sama tíma í fyrra.

Þóknunartekjur bankans lækkuðu á tímabilinu, en vaxtatekjur hækkuðu um 53% í 1,86 milljarð evra.