Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest skilaði 3,2 milljóna evra hagnaði á fyrri hluta árs 2010. Eyrir er kjölfestufjárfestir í Marel og Össuri en félagið á 32% í Marel og 15% í Össuri. Auk þess á félagið 17% hlut í hollenska iðnaðarfélaginu Stork. Félagið birti hálfsársuppgjör sitt í dag.

Eigið fé félagsins í lok júní nam 160 milljónum evra og er eiginfjárhlutfall félagsins 38%. Laust fé og aðrar bankainnistæður nema 34 milljónum evra.

Eignarhlutir Eyris í Marel og Össuri eru færðir í bækur Eyris samkvæmt hlutdeildaraðferð. Ef stuðst er við markaðsvirði eignanna í stað hlutdeildaraðferðar reiknast eiginfjárhlutfall Eyris rúmlega 40%.

Horfur félaganna góðar

Í tilkynningu félagsins til Kauphallar segir að horfur í rekstri Marels, Össurar og Stork séu góðar. „Félögin eru með sterkt sjóðstreymi, trausta fjárhagsstöðu og hafa einnig styrkt samkeppnisstöðu sína enn frekar undanfarin ár. Fjármögnun þeirra er í takt við alþjóðleg viðmið og eru nettó skuldir þeirra á bilinu 2-4x EBITDA (hagnaður fyrir skatta og afskriftir).“

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris, segir að hann sé ánægður með rekstur Marels, Össurar og Stork á fyrri hluta árs.

„Stjórnendur og starfsmenn kjölfestueigna okkar hafa sýnt mikinn styrk og sveigjanleika á erfiðum tímum. Við erum þakklát fyrir það traust sem fjármálastofnanir og fjárfestar hafa sýnt okkur. Eyrir hefur ávallt lagt mikla áherslu á skýra stefnu, gagnsæi í rekstri og langtíma fjármögnun hvort sem um er að ræða hjá félaginu sjálfu eða hjá kjölfestueignum okkar.

Marel, Össur og Stork hafa undanfarin ár skilað sterku sjóðstreymi án þess að draga úr fjárfestingum í rannsóknum og þróun og frekari markaðsaðgangi á heimsvísu. Með sterka markaðsstöðu á vaxandi mörkuðum og góða fjármögnun geta þau skapað mikið hluthafavirði á næstu árum. “

Helmingur skulda Eyris á gjalddaga 2011

Um helmingur skulda Eyris eru á gjalddaga á næsta ári. Þá falla á gjalddaga tæpar 125 milljónir evra, en heildarskuldir félagsins eru um 256 milljónir evra.