Hagnaður samstæðu Jarðborana á árinu 2004 var ríflega 430 milljónir króna, samanborið við 225 milljónir á sama tíma árið áður. Nam hagnaðurinn eftir skatta um 11,2% af heildartekjum fyrirtækisins.
Rekstrartekjur félagsins námu 3.871 milljón króna, en voru 1.753 milljónir árið 2003. Rekstrargjöld með afskriftum voru 3.140 milljónir, borið saman við 1.450 milljónir á sama tíma á fyrra ári. Afkoman er í samræmi við þá niðurstöðu sem félagið gerði ráð fyrir þegar gengið var frá rekstrarmarkmiðum ársins.

Heildareignir samstæðunnar voru bókfærðar á liðlega 7,3 milljarða króna í lok árs 2004 og skiptust þannig að fastafjármunir námu 4,5 milljörðum en veltufjármunir voru 2,8 milljarðar króna. Í árslok nam eigið fé félagsins liðlega 2,6 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 36,2%. Hlutafé samstæðu Jarðborana er 400 milljónir króna að nafnverði.

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, gekk rekstur samstæðunnar vel á liðnu ári. Hann segir verkefnahorfur félagsins vænlegar á næstu misserum, bæði á sviði framkvæmda við boranir og byggingastarfsemi.

Starfsemin innanlands

Borrekstur Jarðborana á árinu 2004 hefur einkennst af miklum umsvifum við háhitaboranir. Verkefni fyrir Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi og fyrir Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði hafa verið áberandi en fyrirtækin eru komin af stað með framkvæmdir vegna byggingar jarðvarmavirkjana, sem m.a. munu framleiða raforku fyrir stækkun Norðuráls. Verkefnastaða borframkvæmda er sterk og er borflotinn starfræktur á vöktum allan sólarhringinn. Nýi hátækniborinn, Geysir, mun styrkja stöðu félagsins og efla samkeppnishæfni innanlands sem utan.

Rekstur Björgunar gekk vel á síðasta ári og er fjárhagur félagsins traustur. Árið 2004 var öflugt ár í íslenskum byggingariðnaði og mannvirkjagerð sem hafði eðlilega jákvæð áhrif á rekstur Björgunar. Vöxtur var í sölu hráefna til byggingariðnaðar, ágætur stígandi var í landfyllingum og hafin var bygging á fyrsta fjölbýlishúsinu á vegum fyrirtækisins. Verkefni á Kársnesi og Sjálandi munu setja sterkan svip á rekstur Björgunar næstu þrjú til fjögur árin. Langtímaverkefni Björgunar á sviði landmótunar og lóðagerðar við sjávarsíðuna skapa félaginu ákjósanlega stöðu á komandi árum.

Einingaverksmiðjan tekst nú á við fjölbreyttari viðfangsefni en áður í sögu félagsins og jókst velta fyrirtækisins verulega. Eins og á fyrra ári varð meginhluti tekna til á seinni hluta árs 2004. Þessi framvinda hafði í för með sér fjölgun á starfsmönnum verksmiðjunnar. Hjá Einingaverksmiðjunni störfuðu um 48 starfsmenn í lok ársins og hafa aldrei verið fleiri. Verkefnastaða Einingaverksmiðjunnar í upphafi árs 2005 er góð og liggja fyrir ágæt verkefni.

Starfsemin erlendis

Jarðboranir og dótturfélagið, Iceland Drillling (UK) Ltd., undirrituðu í nóvember samning við orkufyrirtækið Soego um borun á vinnsluholum vegna háhitavirkjunar á Azoreyjum, í kjölfar alþjóðlegs útboðs. Samningurinn er stærsti framkvæmdasamningur félagsins erlendis og er að verðmæti á fimmta hundrað milljóna króna. Framkvæmdir hefjast nú í febrúar 2005. Ljóst er að með tilkomu nýja hátækniborsins, Geysis, er fyrirtækinu kleift að taka stærri skref í útrás erlendis, ekki síst þegar ráðast þarf í umfangsmikil verkefni hér heima og erlendis á sama tíma.

Iceland Drilling lauk á miðju ári borun á rannsóknarholum fyrir orkufyrirtækið GeoTerceira á Azoreyjum. Allt bendir til að þarna sé um að ræða gjöfult háhitasvæði, hagkvæmt til virkjunar.
Miklir möguleikar liggja í verkefnum erlendis þar sem nýta má sérþekkingu Jarðborana til að skapa félaginu sóknarstöðu. Þetta á einkum við um háhitaboranir og skylda þjónustu. Það er markmið Jarðborana að gera starfsemi félagsins erlendis að sterkri og öflugri afkomueiningu. Starfsemi Jarðborana erlendis hefur tekið breytingum á undanförnum árum í samræmi við framtíðarsýn félagsins. Markvisst verður unnið að því áfram að styrkja starfsemina ytra.

Aðalfundur og arður

Aðalfundur Jarðborana hf. árið 2005 verður haldinn föstudaginn 4. mars 2005. Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn að leggja til við aðalfund að hann veiti stjórn heimild til að auka hlutafé félagsins um 100 milljónir króna að nafnverði. Jafnframt mun stjórn leggja til að greiddur verði 25% arður að fjárhæð 100 milljónir króna til hluthafa.