Hagnaður Landsvirkjunar á fyrri helmingi þessa árs nam tæpum 16 milljónum Bandaríkjadala, sem svarar til 1,9 milljarða króna á núverandi gengi, samanborið við rúma 47 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutareikning Landsvirkjunar sem birtur var í dag. Reikningurinn er samstæðureikningur sem tekur til Landsvirkjunar og dótturfélaga.

Hagnaður fyrir afskriftir og skatta (EBITDA) nam 143,8 milljónum dala að teknu tilliti til áhrifa innleystra áhættuvarna tengdum álverði, samanborið við rúma 144 milljónir á sama tíma í fyrra. Þá var EBITDA hlutfall 80% af veltu samstæðunnar.

Stærstan hluta minnkandi EBIT hagnaðar má rekja til hárra fjármagnsgjalda en þau nema á fyrri helmingi þessa árs tæplega 70 milljón dala, samanborið við tæpa 28 milljónir dala í fyrra. Þá er athyglisvert að rifja upp að á fyrri helming ársins 2008 námu fjármagnstekjur Landsvirkjunar um 32 milljónum dala og á sama tíma árið 2007 námu fjármagnstekjurnar rúmum 365 milljónum dala.

Handbært fé frá rekstri nam 110 milljónum dala eða um 13,3 milljörðum króna á núverandi gengi. Handbært fé í lok júní nam 179 milljónum dala en einnig kemur fram að fyrirtækið hafi aðgang að samningsbundnu veltiláni og er óádreginn hluti þess 282 milljónir dala. Laust fé sé því alls um 461 milljónir dala eða sem nemur um 55 milljörðum króna.

Tekjur samstæðunnar námu 180 milljónum dala á tímabilinu en voru 179 milljónir dala á sama tímabili árið áður að teknu tilliti til áhættuvarna og eru því svipaðar á milli tímabila. Á tímabilinu janúar til júní 2010 gjaldfærði fyrirtækið 4,8 milljónir dala vegna samninga við erlendar fjármálastofnanir vegna álvarna en á sama tímabili 2009 tekjufærði fyrirtækið 40 milljónir dala vegna áhættuvarnarsamninga.

Þá kemur fram að laust fé ásamt fé frá rekstri dugi til að mæta öllum núverandi skuldbindingum fyrirtækisins út árið 2012.

Mat á virði innbyggðra afleiða í tengslum við orkusölusamninga fyrirtækisins lækkaði um 183,2 milljónir dala á tímabilinu en álverð var fremur lágt í lok júní. Þá voru fjárfestingar á tímabilinu 25 milljónir dala á tímabilinu samanborið við 60 milljónir dala á sama tímabili árið 2009. Loks námu afborganir lána 98 milljónum dala umfram nýjar lántökur.

Heildareignir Landsvirkjunar nema 4,6 milljörðum dala eða um 552 milljörðum króna á núverandi gengi. Nettó vaxtaberandi skuldir nema 2,6 milljörðum dala og hafa lækkað um 263 milljónir dala frá áramótum. Eigið fé Landsvirkjunar nam 1,6 milljörðum dala eða sem svarar til um 190 milljarða króna á núverandi gengi. Eiginfjárhlutfall var 34,5%.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun að árshlutareikningur Landsvirkjunar sé gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins. Samkvæmt IFRS eru innleystar áhættuvarnir vegna álverðstengingar í orkusölusamningum færðar á meðal fjármunatekna og fjármagnsgjalda.

„Stjórnendur Landsvirkjunar telja gefa gleggri mynd af rekstri fyrirtækisins að færa innleystar álvarnir með tekjum fyrirtækisins og birta einnig rekstrarreikning með þeim hætti í sérstöku yfirliti sem er fremst í árshlutareikningnum. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu, efnahag eða sjóðstreymi, en hún hefur áhrif á einstaka liði innan rekstrarreikningsins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að Landsvirkjun mun ekki ráðast í nýjar framkvæmdir nema að fjármögnun þeirra sé tryggð. Fyrirspurnir og heimsóknir frá hugsanlegum orkukaupendum sýni að eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun sé mikil og vonast fyrirtækið eftir því að það skili sér í hærra orkuverði í nýjum sölusamningum.