Hagnaður Marels á liðnu ári nam alls 6,6 milljónum evra, eða 575 milljónum króna, sem er 75% aukning frá árinu áður.

Sala ársins 2004 nam alls 112.3 milljónum evra (ISK 9,8 milljarðar) samanborið við 106,1 milljón (ISK 9,2 milljarðar) árið áður. Salan hefur því aukist um 6%. Miðað við fast gengi á milli ára hefur salan aukist um 9%.

Framlegð af vörusölu árið 2004 var 40,8 milljónir evra eða 36,3% af sölu samanborið við 34,6 milljónir eða 32,6% af sölu árið áður. Þessa hækkun á framlegð má einkum skýra með aukinni framleiðni í tengslum við aukna stöðlun á vörum og ýmsar skipulagsbreytingar svo og aukið hagræði í innkaupum.

Rekstrargjöld önnur en kostnaðarverð seldra vara námu 30,8 milljónum evra og jukust þau um 4,9%. Sölu- og markaðskostnaður var 14,2 milljónir evra sem er um 4,7% hærri en á fyrra ári. Þróunarkostnaður var um 7,4 milljónir evra, hækkaði um 3,7%. Bæði í sölu og markaðsstarfi og í vöruþróun hefur megin áhersla verið á aukna framleiðni og aukin samlegðaráhrif með meiri samþættingu innan samstæðunnar. Stjórnunarkostnaður var 9,2 milljónir evra samanborið við 8,6 milljónir árið áður eða hækkun um 6,3%.

Rekstrarhagnaður var 10.596 milljónir evra eða 9,4% af sölu samanborið við 6,2% árið 2003.

Hagnaður af rekstri Marel samstæðunnar á árinu 2004 nam 6,6 milljónum evra (ISK 575 milljónir) samanborið við 3,7 milljónir evra (ISK 324 milljónir) árið áður og jókst því um 76%. Ytri skilyrði voru félaginu að mörgu leyti óhagstæð, einkum gengi íslensku krónunnar og gengiskrossinn á milli evru og Bandaríkjadollars, þegar líða tók á árið 2004. Í ljósi þessara aðstæðna verður viðsnúningurinn að teljast mjög ásættanlegur.

Heildareignir samstæðunnar í lok árs 2004 voru bókfærðar á 90,6 milljónir evra og hafa þær aukist um 9,2 milljónir eða 11,3% frá síðustu áramótum. Þá hækkun má að mestu rekja til aukningar í birgðum og viðskiptavild. Aukninguna í viðskiptavild, 4,5 milljónir evra má rekja til kaupa á Póls hf og kaupa CP Food, dótturfélags Carnitech, á hluta af rekstri þýska fyrirtækisins Röscherwerke GmbH. Sá hluti starfar undir vörumerkinu Geba og framleiðir skurðarvélar fyrir reyktan lax. Birgðir og seld verkefni sem eru í vinnslu hækka um 5,4 milljónir evra og á sama tíma hækka viðskiptaskuldir og fyrirframgreiðslur viðskiptavina um 5,1 milljón evra. Viðskiptakröfur hækka um 7,3% á milli ára, en veittur gjaldfrestur talinn í fjölda daga hefur farið minnkandi. Hann var að jafnaði 43 dagar á árinu 2004 en var 48 dagar árið áður.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á árinu 2004 fyrir 1,6 milljón evra, samanborið við 1,9 milljónir á sama tíma í fyrra. Það var nokkuð minna en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum en hluti áætlaðra fjárfestinga flyst yfir á árið 2005. Alls voru fjárfestingar Marel samstæðunnar 6,6 milljónir evra á árinu en voru 2,0 milljónir 2003. Stærstu einstöku fjárfestingar voru kaupin á Póls hf og Geba.

Marel keypti eigin hlutabréf, umfram seld fyrir 3,0 milljónir evra á árinu 2004 og átti í árslok 6,6 milljónir eigin hluti, sem er um 2,7% af heildarhlutafé félagsins.

Handbært fé frá rekstri nam 10,6 milljónum evra samanborið við 4,7 milljónir árið áður. Handbært fé frá rekstri hefur ekki orðið meira áður. Í lok árs 2004 var handbært fé 4,4 milljónir evra samanborið við 4,7 milljónir á sama tíma í fyrra.

Starfsmenn Marel samstæðunnar voru að jafnaði 836 á á árinu 2004 samanborið við 773 á árið áður. Af þessum 836 voru 310 á Íslandi í tveimur fyrirtækjum og 526 erlendis í 13 fyrirtækjum í 9 löndum.