Bandaríska skyndibita keðjan McDonald‘s stefnir að því að opna 1.000 nýja veitingastaði víðs vegar um heiminn á þessu ári.

Þetta tilkynnti félagið um í gær um leið og það kynnti uppgjör fjórða ársfjórðung 2008 en hagnaður félagsins dróst þá saman um 23% og nam 985 milljónum Bandaríkjadala samanborið við hagnað upp á 1,27 milljarð dala árið áður.

Þá lækkuðu tekjur félagsins á tímabilinu og námu 5,57 milljörðum dala samanborið við 5,75 milljarða dala árið áður. Þetta gerist þrátt fyrir söluaukningu upp á 7,2% (hjá þeim veitingastöðum sem hafa verið opnir 12 mánuði eða lengur) en það sem útskýrir minni tekjur er styrking Bandaríkjadals en stór hluti tekna McDonald‘s kemur erlendis frá.

Þá kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins að þrátt fyrir hækkandi hrávöruverð, svo sem á kjöti, osti og brauði, hefur félaginu tekist að minnka rekstrarkostnað sinn um 8% á milli ára.

Þrátt fyrir minnkandi hagnað eru McDonald‘s menn stórhuga og mun verja um 2,1 milljarði dala á árinu til þess að opna sem fyrr segir, 1.000 nýja veitingastaði.