Hagnaður bresku tískuvöruverslunarkeðjunnar Mosaic Fashions, sem er skráð í Kauphöll Íslands, nam 4,8 milljónum punda (630 milljónum króna) á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 2,1 milljón punda (275,5 milljón krónu) hagnað á sama tímabili árinu áður, segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Mosaic gekk frá kaupum á bresku tískuvörukeðjunni Rubicon í lok júlí síðastliðnum og kemur því Rubicon ekki inn í uppgjör félagsins á öðrum ársfjórðungi sem nær frá maí - júlí.

Hagnaður Mosaic nam 5,6 milljónum punda á fyrri helmingi árs, samanborið við 2,7 milljón punda hagnað á sama tímabili í fyrra.

Heildarsala fyrirtækisins jókst um 9% á fyrri helmingi árs og nam hún 212 milljónum punda, eða 27,8 milljörðum króna, sala utan Bretlands jókst um 34%.

EBITA-framlegð fyrirtækisins var 25,7 milljónir punda á fyrri hluta fjárhagsársins, en það er 6% lækkun frá sama tíma í fyrra, en þá var EBITA 27,4 milljónir punda.

Sala á Karen Millen vörumerkinu jókst um 17% á fyrri helmingi árs, en Oasis minnkaði um 3%.

Derek Lovelock, forstjóri Mosaic, segir að uppgjör seinni ársfjórðungsins hafi verið töluvert betra en á þeim fyrsta, en fyrsti ársfjórðungurinn hafi verið erfiður. "Hálfsársuppgjörið var ekki samkvæmt því sem lagt var upp með, en miðað við markaðsaðstæður er niðurstaðan ásættanleg," sagði Lovelock í samtali við Viðskiptablaðið.

Hin mikla aukning á sölu utan Bretlands segir Lovelock að sé fyrirtækinu mikilvæg, þar sem það sé því síður háð efnahags- og markaðsaðstæðum í Bretlandi.