Hagnaður MP Fjárfestingabanka jókst um 39% milli ára og nam 1,8 milljörðum króna eftir skatta árið 2007, sem jafngildir 35% ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli. Eigið fé jókst um 26% á árinu, í 6.187 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall bankans (CAD) var 28,1% við árslok.

Efnahagur bankans stækkaði milli ára um 22% og er nú 52 milljarðar. Í tilkynningu segir að bankinn sé fjárhagslega sterkur og því vel í stakk búinn til frekari vaxtar. Stjórn félagsins mun leggja fram tillögu um að greiddur verði 30% arður eða 320 milljónir króna. Það svarar til 18% af hagnaði ársins.

Stjórn bankans hefur ákveðið að leggja til við aðalfund að sótt verði um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins.