Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum skilaði tekum upp á 27 milljónir danskra króna á fyrsta fjórðungi ársins. Þetta er í annað sinn sem félagið, sem skráð er í Kauphöllinni, skilar tekjum. Á fjórða fjórðungi í fyrra námu tekjur þess 43 milljónum DKK. Í þeim fjórðungi var hins vegar töluvert tap af rekstrinum, en nú var félagið rekið með 15 milljóna DKK hagnaði.

Í tilkynningu er haft eftir Wilhelm Petersen, forstjóra félagsins, að hann sé ánægður með afkomu fyrsta fjórðungs. Framleiðsla á Chestnut og Suður-Chestnut svæðinu hafi gefið jákvætt sjóðstreymi. Því til viðbótar hafi félagið tryggt sér lánsfjármögnun og sé langt komið með að endurfjármagna brúarlán yfir í langtímalán.

Bjartsýnni um rekstur ársins en áður

Um horfur í rekstri segir að gert sé ráð fyrir að framleiðslan allt að því þrefaldist á næstu mánuðum frá því sem var á fyrsta fjórðungi. Ennfremur sé gert ráð fyrir að halda áfram að rannsaka og undirbúa nokkur svæði undir vinnslu.

Gert er ráð fyrir að hagnaður fyrir fjármangsliði verði 50-60 milljónir DKK í ár, en áður var gert ráð fyrir 20-25 milljónum DKK. Þá er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði yfir 100 milljónir DKK í ár.