Hagnaður króatíska lyfjafyrirtækisins Pliva dróst saman um 32% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við sama tímabili í fyrra, en fyrirtækið á í yfirtökuviðræðum við Actavis og fleiri aðila.

Pliva greindi frá því í gær að hagnaður félagsins dróst saman í 30,2 milljónir Bandaríkjadali (2,25 milljarðar íslenskra króna) úr 44,2 milljónum dala. Sölutekjur félagsins drógust saman um 17% í 283 milljónir dala.

Hins vegar benda sérfæðingar á að ástæða samdráttarins sé að mestu leyti vegna þess að einkaleyfi félagsins á sýklalyfinu azithromycin hefur runnið út, en félagið hefur markvisst verið að selja frá sér frumheitalyfjastarfsemina.

Pliva varð fyrir því áfalli að fá áminningu frá bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA) í vikunni en þrátt fyrir það hefur Actavis enn áhuga á að kaupa félagið, sagði Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, á samtali við Viðskiptablaðið. Pliva sagði yfirtökuviðræðurnar þokast áfram í gær en neitaði að gefu upp nöfn á öðrum áhugasömum kaupendum.

FDA gerði athugasemdir í kjölfar heimsóknar í lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í Zagreb. Bandaríski lyfjamarkaðurinn er sá stærsti í heimi en viðvörun FDA felur í sér að Pliva fær ekki samþykki til að selja ný lyf til Bandaríkjanna fyrr en þau atriði sem koma fram í viðvöruninni hafa verið lagfærð. Hins vegar segir Pliva viðvörunina ekki hafa nein áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins á árinu 2006.

Actavis hækkaði nýlega óformlegt kauptilboð sitt í Pliva í 1,85 milljarða Bandaríkjadali (132 milljarðar króna) úr 1,6 milljörðum dala. Stjórnendur Pliva hafa hafnað tilboðinu á þeim forsendum að það endurspegli ekki raunvirði fyrirtækisins og hefur fyrirtækið nú verið sett í formlegt söluferli. Talið er að nokkrir fjárfestingasjóðir hafi einnig áhuga á Pliva.

Halldór sagði ekki víst hvort að viðvörunin muni hafa áhrif til lækkunar kauptilboðsins en bætti við að hún styrki ekki stöðu stjórnenda Pliva gagnvart hluthöfum. Actavis hefur fundað með stærstu hluthöfum félagsins og átt viðræður við króatísk stjórnvöld til að afla stuðnings við kauptilboðið. Opinberar stofnanir í Króatíu eiga samtals 18% hlut í Pliva, sem er skráð í kauphallirnar í London og Zagreb.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Actavis tryggt fjármögnun og hafa fjárfestingabankarnir J.P. Morgan og HSBC samþykkt lána til kaupanna.Pliva hefur verið að selja frá sér einingar og frumheitalyfjastarfsemi sína til að einbeita sér að samheitalyfjastarfsseminni.