Ríkisrekna rússneska olíufyrirtækið Rosneft greindi frá því í gær að hagnaður félagsins á síðasta ári hefði minnkað um 15%, samanborið við árið 2005. Ein ástæðan fyrir minni hagnaði Rosneft voru hærri skattgreiðslur sem fyrirtækið þurfti að greiða. Nam hagnaður félagsins samtals 3,53 milljörðum Bandaríkjadala, sem var nokkuð meira heldur en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir.

Rosneft hefur stækkað umtalsvert að undanförnu í kjölfar þess að félagið stóð í umdeildri yfirtöku á eignum Yukos sem var dæmt til gjaldþrots af rússneskum dómstólum. Gengi hlutabréfa í Rosneft hafði lækkað um 1,9% á hádegi í gær og stóðu bréfin í 7,98 dölum á hlut.