Hagnaður Sjóvá samstæðunnar nam 3,76 milljörðum krónan á árinu 2005 í samanburði við 3,59 milljarða árið á undan. Arðsemi eigin fjár nam 49,9 % á árinu 2005.

Fjárfestingarstarfsemi félagsins gekk vel árinu eins og árið á undan en nokkur viðsnúningur varð jafnframt á tryggingastarfsemi félagsins. Hagnaður í tryggingastarfsemi samstæðunnar árið 2005 nam tæplega 391 milljón króna í samanburði við 77 milljóna tap árið áður. Hagnaður af vátryggingastarfsemi eftir óreglulega liði nam 84 milljónum í samanburði við 77 milljóna tap árið áður.

Samsett hlutfall félagsins, sem er rekstrarkostnaður og tjón í hlutfalli við iðgjöld, nam 119,9% í samanburði við 122,2% árið áður. Á árinu 2006 er stefnt að því að samsett kostnaðarhlutfall félagsins verði undir 110% og að vátryggingastarfsemi félagsins verði þannig treyst.

"Félagið sýnir ótvírætt betri árangur í vátryggingastarfsemi sinni á árinu 2005," segir Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá í tilkynningu félagsins. "Það er mikilvægt að vátryggingastarfsemi hérlendis hvíli ekki einungis á fjárfestingarstarfsemi heldur fyrst og fremst á góðri afkomu í vátryggingastarfseminni sjálfri. Að því er stefnt hjá Sjóvá. Samsetta hlutfallið hjá þrem stærstu tryggingafélögum Danmerkur er um 90% og við höfum sett okkur það markmið að samsetta hlutfallið verði 100% árið 2007."

Karl Wernersson stjórnarformaður Sjóvá segir að félagið sá á réttri leið og afkoman fari batnandi. "Starfsfólk félagsins hefur lagt sig fram og hagrætt á árinu 2005 en við ætlum að ná meiri árangri á þessu ári. Bæði með því að bæta þjónustuna og hagræða," segir Karl Wernersson í sömu tilkynningu.