Rekstarhagnaður japanska raftækjarisans Sony hækkaði um 68% milli ára, sem er mun meiri hækkun en sérfræðingar höfðu búist við, en fyrirtækið spáir því þó að hagnaður á komandi reikningsári fari minnkandi vegna eignasölu.

Þessi rekstrarniðurstaða gefur von um að fyrirtækið, "sem hefur átt í verulegum vandræðum undanfarin ár", hafi loksins náð að snúa rekstrinum til hins betra. Í afkomutilkynningu fyrirtækisins fyrir reikningsárið sem endaði í mars kom fram að þessi aukni hagnaður væri vegna vaxandi sölu á sjónvarpstækjum með flötum skjám, hagnaðar af fjárfestingum og veikleika japanska jensins. Hagnaður samstæðunnar nam 191,3 milljörðum jena (135 milljörðum króna), borið saman við 113,9 milljarða (74 milljarða króna) á árinu 2004-2005.

Sony spáir því hins vegar að hagnaður lækki um 48% á árinu 2006-2007 og nemi um 100 milljörðum jena, eða 65 milljörðum króna. Fyrirtækið kennir miklum stofn- og þróunarkostnaði vegna PlayStation 3 leikjatölvunnar um. Þessi spá er töluvert undir spá sérfræðinga, sem gerir fjárfestum í Sony erfitt fyrir.

Allt frá hinu svokallaða "Sony-áfalli", vorið 2004, þegar fyrirtækið tilkynnti um mun verri rekstrarniðurstöðu en búist hafði verið við, hefur aðalspurningin hjá fyrirtækinu verið hvort því takist að snúa við afkomunni hjá raftækjadeildinni. Nýjustu vísbendingar eru í þá átt að það batinn sé töluverður. Sérstaklega hefur sala á Bravia, LCD-skjá sem talinn var skipta höfuðmáli fyrir reksturinn, gengið vel.