Hagnaður Sparisjóður Kópavogs fyrstu sex mánuði ársins 2007 er 983 milljónir króna fyrir skatta en var 106 milljónir króna á sama tímabili árið 2006, aukningin nemur 831,6%.

Að teknu tilliti til skatta er hagnaður tímabilsins 811 milljónir króna. í samanburði við 96 milljónir króna fyrri hluta árs 2006. Hagnaður eftir skatta eykst um 745,7% milli tímabila.

Arðsemi eiginfjár var 121,5% á ársgrundvelli.

Vaxtatekjur fyrri hluta árs 2007 eru 1.148 milljónir króna og dragast saman um 3,8% frá sama tímabili fyrra árs. Vaxtagjöld aukast um 4,8% og eru alls 1.035 milljónir króna. Hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins eru 113 milljónir króna en voru 206 milljónir króna á sama tíma árið 2006.

Vaxtamunur, þ.e. vaxtatekjur að frádregnum vaxtagjöldum í hlutfalli af meðalstöðu heildarfjármagns, er nú 1,0% en var 2,2% á sama tímabili árið 2006.

Aðrar rekstrartekjur á fyrri hluta ársins 2007 eru 1.202 milljónum króna samanborið við 132 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Hreinar rekstrartekjur eru 1.363 milljónir króna samanborið við 389 milljónir króna á sama tímabili 2006.

Laun og launatengd gjöld eru 167 milljónir króna en voru 102 milljónir króna á sama tímabili í fyrra, eða 63,2% hækkun milli tímabila.

Rekstrargjöld sem hlutfall af meðalstöðu efnahags eru 2,5% á ársgrundvelli og lækkar úr 3,0% fyrir árið 2006. Kostnaðarhlutfall er 24,1% en var 58,7% á sama tíma í fyrra.

Virðisrýrnun útlána er 52 milljónir króna samanborið við 55,0 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins 2006. Afskriftareikningur útlána er 0,9% af heildarútlánum og veittum ábyrgðum, var 1,1% í árslok 2006.

Útlán til viðskiptavina eru 17.169 milljónir króna aukast um 1.351 milljónir króna frá áramótum eða um 8,6%. Helsta útlánsform er sem fyrr verðtryggð lán.

Almenn innlán ásamt lántöku eru 18.561 milljónir króna samanborið við 16.591 milljónir króna í árslok 2006. Almenn innlán eru 11.993 milljónir króna aukast um 7,4% frá áramótum, sem er einkar ánægjuleg þróun. Lántaka er 6.568 milljónir króna samanborið við 5.419 milljónir króna í árslok 2006. Hlutfall almennra innlána af útlánum er hátt og þar af leiðandi er fjármögnun sparisjóðsins sterk.

Heildarfjármagn í lok júní er 25.102 milljónir króna, hækkar um 4.052 milljónir króna frá árslokum 2006 eða 19,3%.

Eigið fé í árslok 2006 er 2.083 milljónir króna hækkar um 664 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins 2007 eða 46,9%. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum er 14,9% en var 11,3% um síðustu áramót. CAD-eiginfjárhlutfall má ekki vera lægra en 8,0%.