Hagnaður fjölmiðlarisans Time Warner nam 2,32 milljörðum Bandaríkjadala (156,9 milljörðum króna) á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 853 milljónir dala (57,6 milljarða króna) á sama tíma í fyrra, segir í frétt Dow Jones.

Rekstrarhagnaður jókst þó aðeins um 1,1%. Hagnaður vegna aukins styrks kapalssjónvarps fyrirtækisins og nýlegrar yfirtöku á kapalsjónvarpsfyrirtækinu Adelphia Communications eiga þátt í mikilli hagnaðaraukningu fyrirtækisins, segir í fréttinni.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 7% á þriðja ársfjórðungi, í 10,91 milljarða Bandaríkjadala (737,6 milljarða króna). Kapalsjónvarpsrekstur Time Warner átti þar mestan þátt í en þar jukust tekjur um 44% í 3,2 milljarða Bandaríkjadala.

Með yfirtökunni á Adelphia, sem lýsti yfir gjaldþroti, bætti Time Warner við sig 3,2 milljónum áskrifendum og er nú annað stærsta kapalsjónvarpsfyrirtæki Bandaríkjanna.