*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 11. júlí 2013 14:39

Hagræðing í menntakerfinu skiptist ójafnt á skólastig

Viðskiptaráð vekur athygli á því að Ísland er eina OECD ríkið þar sem framlag á nemanda er hærra í grunnskóla en háskóla.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Hagræðing í menntakerfinu undanfarin ár hefur skiptst með ólíkum hætti á milli skólastiga, þar sem verulegur samdráttur í fjárframlögum hefur átt sér stað á framhalds- og háskólastigi en tiltölulega lítill á grunnskólastigi. Kemur þetta fram í Skoðun Viðskiptaráðs.

„Þetta endurspeglast vel í þeirri staðreynd að á síðasta ári var Ísland eina landið innan OECD þar sem fjárframlög á hvern nemenda í grunnskólanámi voru hærri en á hvern nemenda í háskólanámi. Ennfremur hefur raunframlag á hvern nemenda í háskóla dregist saman um 31% síðustu 15 ár á sama tíma og framlag á hvern grunnskólanema hefur aukist um 29%. Með hliðsjón af mikilvægi háskólastarfs fyrir nýsköpun, rannsóknar- og þróunarstarf er hætt við að áframhaldandi þróun af sama toga dragi verulega úr vaxtartækifærum Íslands á komandi árum,“ segir í Skoðuninni.

Þar segir að þrátt fyrir að viðfangsefnið sé krefjandi virðist sem enn séu ýmis tækifæri til hagræðingar í menntamálum. „Námsár í grunn- og framhaldsskólum eru t.a.m. fleiri en í flestum samanburðarlöndum. Kostnaður á hvern nemenda meðal smærri grunnskóla landsins er einnig afar ólíkur, sem bendir til möguleika til aukins rekstraraðhalds á meðal þeirra sem standa sig verr. Þá fer mun stærra hlutfall af kostnaði við grunnskólakerfið í stoðþjónustu en hjá nágrannaríkjum okkar. Þessar staðreyndir, ásamt fleiri þáttum sem bent hefur verið á í umræðu um menntamál á undanförnum misserum, gefa til kynna að skynsamlegra væri að horfa til annarra skólastiga en háskólans þegar kemur að frekari hagræðingu.“

Til að snúa við þeirri þróun að háskólanám sé afgangsstærð í menntamálum segir Viðskiptaráð að opna þurfi umræðuna og leita uppbyggilegra langtímalausna.