Þessi hagræðingarleið er greinilega lokuð. Ég held að það sé ekki hægt að lesa úrskurðinn öðruvísi. Okkur er óheimilt að efna til samstarfs, að minnsta kosti við annan stóran aðila, um þessa hluti,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, um ógildingu Samkeppniseftirlitsins á kaupum Landsbankans í Verdis. Hægt er að skjóta ákvörðun eftirlitsins til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Að sögn Kristjáns hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort það verði gert.

Verdis starfar á sviði verðbréfaumsýslu og sér um vörslu verðbréfa, bakvinnslu og umsýslu verðbréfasjóða. Félagið, sem áður hét Arion verðbréfavarsla, er alfarið í eigu Arion banka. Yfirlýst stefna við kaupin var að eignarhlutur Arion og Landsbankans í Verdis yrði minni en 50% að þremur árum liðnum. Til stóð að opna félagið fyrir öðrum fjármálafyrirtækjum á markaði.

Telja engan hag fyrir neytendur

Samkeppniseftirlitið tilkynnti um ákvörðun sína í síðustu viku. Að mati þess myndi samruninn raska samkeppni með alvarlegum hætti. „Með kaupum á eignarhlut í Verdis munu Landsbankinn og Arion banki hafa sameiginleg yfirráð yfir Verdis og fulltrúar bankanna munu sitja saman í stjórn fyrirtækisins. Samruninn mun einnig leiða til þess að Landsbankinn hættir eigin verðbréfaumsýslu og mun þess í stað þiggja þá þjónustu frá Verdis. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er rökstutt að þetta þýði að Verdis muni njóta yfirburða á markaðnum og verða markaðsráðandi í verðbréfaumsýslu,“ segir eftirlitið í ákvörðun sinni. Eftirlitið tekur fram að bankarnir tveir, ásamt Íslandsbanka, séu stærstu keppinautar á almennum viðskiptabankamarkaði.

Tillögur bankanna um hvernig þeir gætu komið í veg fyrir að samruninn raski samkeppni þóttu ekki fullnægjandi. Rök um hagræðingu þóttu heldur ekki nægileg, þar sem samkeppnislög segja til um að unnt sé að horfa til hagræðingar ef fyrirtæki sanna að hún skili sér til neytenda. Það þótti ekki sannað.

Aðspurður um hvort bankinn telji slíkan samruna skila sér til neytenda segir Kristján svo vera, og lögð hafi verið fram gögn þess efnis. „En þau fengu ekki náð og voru ekki talin nægileg.“

Kristján segir eitt skilyrða Samkeppniseftirlitsins hafa verið að fimm manna stjórn Verdis yrði skipuð óháðum einstaklingum. Það þýði hins vegar að bankarnir gangi frá eign sinni, sem ekki hafi verið hægt að fallast á. Bankarnir féllust á að einhverjir stjórnarmanna yrðu óháðir, en ekki allir.