Erfitt er að segja til um það hvort hagstæðara er að spara með verðtryggðum innlánum eða óverðtryggðum á sama tíma og óvissa ríkir í efnahagslífinu, stýrivextir Seðlabankans að hækka, óvíst hvaða gjaldmiðill verður hér í framtíðinni og að draga úr verðbólgu.

„Verðtrygging er ekki vitlaus í því samhengi,“ sagði Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóra VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka. Hann hélt erindi á fundi Íslandsbanka í dag um ávöxtun fjármuna í verðbólgu. Hann sagði árangur í ávöxtun fjármuna á undanförnum árum hafa að miklu leiti ráðist af því hvernig sparifjáreigendur hafa stýrt sinni verðtryggingu. Ávöxtun verðtryggðra innlána, einkum verðtryggðra ríkisskuldabréfa, hafi verið mjög góð frá hruni þar sem aðstæður hafi hentað vel til slíkra fjárfestinga. Hinsvegar hafi raunávöxtun óverðtryggðra bankareikninga verið neikvæð frá því snemma á síðasta ári.

Í Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka er gert ráð fyrir því að stýrivextir fari í 7,5% í lok spátímans 2014 og að draga muni úr verðbólgu. Raunávöxtun ætti þó að batna á næstu misserum. Björn lagði áherslu á að sparifjáreigendur horfi ekki einungis til vaxtaprósentu sparnaðarformsins þegar þeir velja ávöxtunarleið. Horfa verður til fleiri þátta á borð við  tryggingar, eignadreifingu, binditíma sparnaðar og skattgreiðslur.

„Það er gott að hafa í huga að þessi óvissa um verðbólgu virðist til hækkunar. Allur er varinn góður þegar kemur að þessu,“ sagði Björn.

Góð eignadreifing þýðir það að við erum ekki að fá bestu vextina en það dreifir áhættunni.