Hagstofa Íslands gaf í dag út endurskoðaða þjóðhagsspá. Spáin nær til áranna 2016 til 2021 en í henni er meðal annars gert ráð fyrir því að landsframleiðslan hafi aukist um 4,2% árið 2015, muni aukast um 4% á þessu ári og 3,1% árið 2017.

Árið 2016 er gert ráð fyrir 5,2% vexti einkaneyslu og 13,2% aukningu í fjárfestingum. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 3,1%, einkaneysla um 4,2% og fjárfesting um 7,7%.

Á árunum 2018 til 2021 er spáð nærri 3% hagvexti og 3% vexti einkaneyslu, en á sama tíma er gert ráð fyrir að dragi úr vexti fjárfestingar. Búist er við að samneysla aukist um 1,2 - 1,6% árlega 2016 – 2021 og að opinber fjárfesting dragist saman árið 2016 en aukist hóflega eftir það.

Hagstofan segir að lágt olíu- og hrávöruverð, ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu og gengisstyrkingu krónunnar hafa haldið verðbólgu á Íslandi í skefjum. Spáð er að verðbólga verði 2,5% árið 2016, aukist í 3,9% 2017 en minnki  eftir það.