„Við útreikning á vísitölu neysluverðs er tekið tillit til breytinga á stærð pakkninga og leiðrétt fyrir þeim í mælingunni þar sem það á við,“ segir Guðrún Ragnheiður Jónsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar hjá Hagstofunni, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort einnig sé litið til breytinga á stærð eða þyngd vöru við mælingar á vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólguna.

Nói Siríus minnkaði nýverið stærð umbúða fyrir Opal og Tópas um 33%. Verð lækkaði hins vegar um 21%, og segir Nói ástæðuna vera þá að kostnaður við pökkun og umbúðir minnkar hlutfallslega minna við breytinguna. Þá lítur Nói einnig til almennra verðbreytinga.

Samkvæmt svari Hagstofunnar hefur það því einnig áhrif til hækkunar verðbólgu þegar magn minnkar en verð helst óbreytt.