Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar jókst landsframleiðsla um 4,9% á árinu 2018 samanborið við 4,6% vöxt árið 2017. Mest munaði um vöxt einkaneyslu sem jókst um 4,8% á milli ára, en samneysla jókst um 3,3% og fjárfestingar um 3,5%. Þjóðarútgjöld jukust um 4,4% milli ára í fyrra sem er nokkuð minna á árabilinu 2015-2017 þegar árlegur vöxtur þjóðarútgjalda mældist 7,5% að meðaltali.

Töluvert hægði á vexti fjárfestinga í fyrra en þær jukust um 3,5% milli ára en árið 2017 nam vöxturinn 11,6%. Skýrist það af miklum samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna sem minnkuðu um 4,1% frá fyrra ári samanborið 7,7% vöxt árið 2017. Mikil aukning í fjárfestingu hins opinbera vegur á móti en hún jókst um 23,3% á liðnu ári sem er sami vöxtur og árið 2017. Fjárfesting mæld sem hlutfall af landsframleiðslu var 22,2% á síðasta ári sem er hærra hlutfall en 22% meðaltal síðustu tveggja áratuga. Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera á 4. ársfjórðungi, samanborið við sama tímabil fyrra árs og sömuleiðis milli áranna 2017 og 2018, skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga frá einkahlutafélaginu Speli til ríkisins.

Einkaneysla jókst um 4,8% að raungildi á árinu 2018 samanborið við 8,1% vöxt árið 2017 og 7,2% árið 2016. Að raungildi var einkaneysla á síðastliðnu ári hærri en hún hefur áður mælst. Að teknu tilliti til mannfjölda jókst einkaneysla um 1,9% á árinu 2018 en hún mælist þó enn 1,1% minni að raungildi en þegar einkaneysla á mann mældist mest árið 2007. Sterk fylgni hefur verið milli þróunar kaupmáttar launa og einkaneyslu undanfarin ár. Frá árinu 2007 hefur kaupmáttur launa vaxið um 28,5% og einkaneysla aukist um 20,2%. Einkaneysla á mann hefur aftur á móti ekki aukist jafn mikið, eða um 8,7% að raungildi frá árinu 2007.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði jókst um 18% á árinu 2018, samanborið við 20,7% vöxt árið 2017. Frá árinu 1998 hefur íbúðafjárfesting verið sem nemur 3,9% af landsframleiðslu en fór lægst niður í 2,1% árið 2010. Á árinu 2018 var íbúðafjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu 4,3%.

Samneysla jókst um 3,3% að raungildi á liðnu ári, samanborið við 3,6% vöxt árið 2017. Vöxtur samneyslu mældist fremur hægur á árunum 2013-2016, eða 1,6% að meðaltali á ári. Frá árinu 1980 hefur samneyslan aukist um 3,1% að meðaltali á ári en um 2,4% á ári frá 1990.

Heildarútflutningur jókst um 1,6% á árinu 2018 sem er nokkuð hægari vöxtur en síðustu ár. Vöruútflutningur jókst um 3,5% og útflutningur á þjónustu um 0,1%. Á sama tíma jókst innflutningur um 0,1%, þar af á þjónustu um 7,3% en vöruinnflutningur dróst saman um 4%. Fyrir árið 2018 í heild var vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður um 86,5 milljarða samanborið við 106,8 milljarða fyrir 2017 á verðlagi hvors ár

Mikill vöxtur á síðasta ársfjórðungi

Landsframleiðslan á 4. ársfjórðungi 2018 jókst að raungildi um 5,2% frá sama ársfjórðungi fyrra árs, samanborið við 2,5% vöxt á 3. ársfjórðungi. Þjóðarútgjöld á fjórðunginum, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 5,4%. Einkaneysla jókst um 3,3%, samneysla um 2,6% og fjárfesting um 8%.

Fjárfesting á 4. ársfjórðungi 2018 jókst um 8% að raungildi borið saman við sama tímabil árið áður. Vöxtinn má að mestu rekja til íbúðafjárfestingar sem jókst um 9,4% og fjárfestingar hins opinbera sem jókst um 85,1%. Á sama tímabili dróst fjárfesting atvinnuveganna saman um 7,9%. Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera á 4. ársfjórðungi, samanborið við sama tímabil fyrra árs og sömuleiðis milli áranna 2017 og 2018, skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga frá einkahlutafélaginu Speli til ríkisins.

Einkaneysla jókst að raungildi um 3,3% á 4. ársfjórðungi samanborið við sama tímabili fyrra árs. Er það nokkru minni vöxtur en mælst hefur á ársfjórðungsgrunni síðustu ár, en vöxtur einkaneyslu hefur ekki mælst minni á ársfjórðungsgrunni frá því á 3. ársfjórðungi 2014.

Heildarútflutningur dróst saman um 5,9% á 4. ársfjórðungi 2018 samanborið við sama tímabil fyrra árs. Útflutningur þjónustu dróst saman um 11,4% en vöruútflutningur jókst um 0,3%. Innflutningur dróst saman um 6% á sama tímabili. Vöruinnflutningur dróst saman um 9,1% og innflutningur þjónustu um 0,6%. Var vöru- og þjónustujöfnuður á fjórða ársfjórðungi neikvæður um 3,5 milljarða króna en hann var jákvæður um 14,2 milljarða á sama tíma árið 2017, á gengi hvors árs. Vöru- og þjónustujöfnuður hefur í áratug verið jákvæður á ársfjórðungsgrunni, eða frá því á 4. ársfjórðungi 2008.