Hagvöxtur evrusvæðisins á öðrum ársfjórðungi hefur ekki verið meiri í sex ár og er því líklegt að evrópski seðlabankinn hækki stýrivexti í kjölfar þess, segir í frétt Dow Jones.

Verg landsframleiðsla landanna tólf sem tekið hafa upp evruna jókst um 0,9% frá fyrsta fjórðungi og 2,4% frá því á sama tíma í fyrra, segir í tölum hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.

Greiningaraðilar sem Dow Jones fréttastofan talaði við höfðu spáð 0,8% hækkun frá fyrsta fjórðungi og 2,3% frá því í fyrra.

Hagvöxtur hefur ekki verið meiri síðan á öðrum fjórðungi árið 2000, en þá var hann einnig 0,9%.

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins segir að verg landsframleiðsla evruríkjanna muni aukast um 0,5-0,9% á þriðja fjórðungi og 0,4-0,9% á þeim fjórða.