Vöxtur vergrar landsframleiðslu á 3. ársfjórðungi í Bandaríkjunum nam 3,9% samkvæmt nýbirtum tölum, sem er nokkuð umfram fyrri spár markaðsaðila sem höfðu gert ráð fyrir um 3,7% hagvexti. Einkaneysla óx um 5,1% á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra og var helsti drifkraftur hagvaxtar að þessu sinni, en einkaneysla hefur ekki vaxið jafn hratt í rúm þrjú ár eins og nú.

Á þetta er bent í Hálffimm fréttum KB banka. "Talið er að hagvaxtartölurnar gefi Seðlabanka Bandaríkjanna aukið tilefni til stýrivaxtahækkana, sérstaklega í ljósi mikilllar aukningar í einkaneyslu sem gæti kynt undir verðbólguþrýsting. Þá hafa nýlega birst jákvæðar fréttir af vinnumarkaði þar sem spurn eftir vinnuafli virðist hafa vaxið. Í kjölfarið er talið líklegt að Seðlabanki Bandaríkjanna muni koma til með að hækka stýrivexti á næstunni en markaðurinn virðist hafa veðjað á um 25 punkta hækkun fyrir áramót," segir í Hálffimm fréttum KB banka.