Hagvöxtur í fyrra var meiri en áður var talið. Vöxturinn mældist 4,3% í stað 4,0% áður samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Meiri tekjur af útfluttri þjónustu en áður var talið skýrir aukningu hagvaxtarins að mestu. Hagvöxtur í fyrra var mjög góður bæði í sögulegu og alþjóðlegu ljósi. Vöxturinn var yfir því sem hann hefur verið hér á landi að meðaltali síðustu tíu árin og meiri en áætlað er að hann hafi verið nær tvöfaldur sá vöxtur sem mældist í aðildarríkjum OECD í fyrra.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að hagkerfið byrjaði yfirstandandi hagvaxtartímabil af krafti með miklum vexti bæði einkaneyslu og fjárfestingu en á föstu verði óx einkaneysla um 6,6% á árinu og fjárfesting um 17,6%. "Á móti var stöðnun í útflutningi en hann jókst einungis um 0,3% á árinu og mun minna en hann hefur gert undanfarin ár að meðaltali og minna en útflutningur almennt í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við," segir í Morgunkorni.