Hagvöxtur í Japan á öðrum ársfjórðungi mældist 1,7% á ársgrundvelli samkvæmt tölum sem birtar voru í dag. Er þetta langt undir almennum væntingum, en hagfræðingar gerðu ráð fyrir 4,2% vexti skv. könnun Bloomberg. Minni vöxtur eftirspurnar neytenda og útflutnings eiga hvað stærstan þátt í þessum óvæntu tölum, en útflutningur og einkaneysla hafa verið meginstoðin í vexti japanska hagkerfisins að undanförnu.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að eftirspurn jókst um aðeins 0,4% á fjórðungnum, mælt á ársgrundvelli, samanborið við 1,1% á fyrsta ársfjórðungi. Þá jókst útflutningur um 3,5% samanborið við 5,2% á fyrsta ársfjórðungi. Gengi jensins lækkaði töluvert gagnvart dollara í kjölfar fréttarinnar og Nikkei hlutabréfavísitalan datt í þriggja mánaða lágmark. Spár gera ráð fyrir að hagvöxtur í Japan á þessu ári verði um 3,5% segir í Morgunkorninu.