Englandsbanki tók í dag ákvörðun um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,1%. Það eru lægstu stýrivextir í sögu Englandsbanka sem stofnaður var árið 1694. Sjö af níu nefndarmönnum í peningastefnunefnd bankans samþykktu tillögu þess efnis að því er BBC greinir frá.

Væntingar voru uppi um að verðhækkanir ýmissa vöruflokka að undanförnu myndu leiða til stýrivaxtahækkana. Orkuverð hefur hækkað skarpt að undanförnu. Von er á hækkandi matvælaverði og fleiri vara þar sem margir framleiðendur sjá ekki fram á að að halda í við pantanir af ýmsum sökum sem flestar tengjast heimsfaraldrinum eða Brexit með einum eða öðrum hætti.

Englandsbanki gaf út að skynsamlegt væri að bíða með að sjá hvernig þróunin yrði á vinnumarkaði eftir að úrræði stjórnvalda til að verja störf í heimsfaraldrinum rann sitt skeið um síðustu mánaðamót.

Englandsbanki spáir því að verðbólga, sem nú er í 3,1% á Bretlandi, muni ná hámarki í 5% í apríl. Rætist það verður það hæsta verðbólga í áratugi og nokkuð umfram 2% verðbólgumarkmið bankans. Bankinn býst við að verðbólga taki að lækka á ný þegar líða tekur á næsta ár.

Englandsbanki lækkaði einnig hagvaxtarspá bankans fyrir þriðja ársfjórðung um helming frá ágústspá bankans eða í 1,5%. Því mun landsframleiðsla ekki ná sama stigi og fyrir faraldurinn fyrr en í upphafi næsta árs en áður hafði Englandsbanki spáð því að það næðist í lok þessa árs.