Það er óhætt að fullyrða að það hafi verið tíðindameira á skuldabréfamarkaði í dag heldur en hjá skráðum félögum aðalmarkaðar Nasdaq Iceland en veltan á fyrrnefnda markaðnum var ríflega þrefalt hærri en á þeim síðarnefnda. Alls skiptu verðbréf fyrir á átjánda milljarð króna um hendur í dag.

Sé byrjað á skráðum félögum er óhætt að segja að Arion banki hafi verið sætasta stelpan á ballinu í dag en bréf í bankanum hækkuðu mest skráðra hlutabréfa í dag eða um 0,97%. Viðskipti með bréfin námu 532 milljónum króna en það var þriðja mesta magnið.

Næstmest var hækkunin hjá Sýn, um 0,57% í 115 milljón króna viðskiptum, þá VÍS með 0,48%, Skeljungur um 0,38% og Sjóvá um 0,3%. Samanlagt magn síðastnefndu þriggja félaganna var rúmlega 44 milljónir króna og þar af voru 43 milljónir með bréf í Sjóvá. Önnur félög lækkuðu í viðskiptum dagsins og lækkaði OMXI10 vísitalan um 0,3%.

Venju samkvæmt sveiflaðist Icelandair nokkuð til og að þessu sinni var sveiflan niður á við. Bréf félagsins lækkuðu um 2,69% í 105 milljón króna viðskiptum. Þar á eftir kom Reginn um 2,26%, viðskipti námu 19 milljónum, og Origo um 1,9% í tíu milljón króna viðskiptum. Reitir lækkuðu einnig um rúmt prósent og Hagar og Festi um tæpt prósent.

Mesta magnveltan, líkt og oft áður, var með Marel en félagið lækkaði um 0,44% þegar 830 milljónir skiptu um hendur. Því næst kom Síminn með 791 milljón og lækkun um hálft prósent. Þar á eftir fylgdu bankarnir Arion og Kvika og svo Festi, Hagar og Reitir. Tæplega 76 milljónir hluta að nafnvirði skiptu um hendur í Símanum.

Sem fyrr segir var talsvert meiri hamagangur á skuldabréfamarkaði. Þar áttu sér stað 165 viðskipti og var veltan 13,5 milljarðar króna. Veltan í óverðtryggða hlutanum nam 6,6 milljörðum króna.