Fjármálaeftirlitið getur sektað lögaðila um að hámarki 50 milljónir króna. Í tilviki einstaklinga getur sekt numið á bilinu frá 100 þúsunda króna til 20 milljóna króna. Þetta kemur fram í skriflegu svari FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. FME lagði fyrr í mánuðinum 15 milljóna sekt á EA eignarhaldsfélag, fyrrum eiganda MP banka, vegna áhættuskuldbindinga bankans. Þær námu alls 6.368 milljónum við tengda aðila bankans í lok árs 2009, eða 126,34%. Hæst má hlutfallið vera 25%. Í fréttum Stöðvar 2 í vikunni sagði Gunnar Andersen, forstjóri FME, að þörf væri á að rýmka sektarheimildir eftirlitsins. Hann sagði það ljóst að 50 milljónir sé frekar lág upphæð fyrir stór fyrirtæki.