Svo virðist sem leikfangarisinn Hamleys, sem nú er undir stjórn skilanefndar Landsbankans, sé að rétta úr kútnum en árið í fyrra var eitt erfiðasta ár í tæplega 250 ára sögu félagsins.

Á vef breska blaðsins The Times er greint frá því að tap félagsins á síðasta ári nam alls 6,9 milljónum Sterlingspunda. Þá hafði salan hjá Hamleys dregist saman um 12% frá því í október 2008 fram í mars á þessu ári sem er þó nokkuð minna en gert hafði verið ráð fyrir að sögn blaðsins. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs jókst salan þó um 5%.

Baugur átti rúman 60% hlut í Hamleys en sem fyrr segir fer Skilanefnd Landsbankans nú með þann hlut. Guðjón Reynisson er sem fyrr forstjóri Hamleys en Gunnar Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Baugs er nú stjórnarformaður.

En samkvæmt frétt Times er félagið þó ekki af baki dottið. Þannig áætla stjórnendur félagsins enn að opna nýjar verslanir á þessu ári, meðal annars í Glasgow og í Mumbai. Þá á félagið enn í viðræðum um að opna verslun í Cardiff. Við þetta má svo bæta að Hamleys áætlar einnig að opna stærri verslanir í Leeds og Manchester.

Þá gerir félagið einnig ráð fyrir að fjölga verslunum sínum á flugvöllum, lestarstöðvum auk þess að leita fleiri samstarfsaðila um leigu á nafninu Hamleys.

Í frétt Times segir að það hafi lengið verið á dagsskrá félagsins að fjölga verslunum. Haft er eftir Guðjóni að mikilvægt sé að við stækkun félagsins sé stigið eitt skref í einu.