Hampiðjan hefur sent frá sér skráningarskjal vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins á nýjan markað í Kauphöll Íslands, svokallaðan iSEC markað, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka en þar er stefnt á að hægt sé að hefja viðskipti með bréf félagsins á iSEC þann 3. júlí en að afskrá bréfin af Aðallista Kauphallarinnar þann 30.júní. Það eru rúmlega 260 hluthafar í Hampiðjunni, samkvæmt greiningardeildinni.

?Markaðurinn [iSEC] sækir í erlenda fyrirmynd en árið 1995 hóf kauphöllin í London að reka hlutabréfamarkað sem nefnist AIM (Alternative Investment Market) og er hugmyndin ekki ósvipuð þeirri sem býr að baki iSEC. Markaðnum er ætlað að þjóna minni og meðalstórum fyrirtækjum sem vilja eiga þess kost að sækja fjármagn til fjárfesta á einfaldari hátt en þegar um óskráð félög er að ræða," segir greiningardeildin.

Cyntellect, tækjaframleiðandi fyrir lyfja- og líftækniiðnaðinn, hefur einnig fengið samþykkta skráningu á iSEC að undangenginu hlutafjárútboði til fagfjárfestu og hefur það verið framlengt til 30. júní. Útboðsgengið er 2,5 bandaríkjadalir á hlut en Cyntellect tilkynnti til Kauphallarinnar verðmat frá TSG Partbers, en það er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í líftækni, og metur félagið á 3,5 bandaríkjadali á hlut.