Fyrstu sex mánuði ársins var handbært fé frá rekstri ríkissjóðs neikvætt um 36,5 milljarða króna. Tekjur á tímabilinu voru 27,7 milljörðum krónum hærri en í fyrra. Á sama tímabili jukust gjöldin um 3,1 milljarða króna. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins.

Innheimtar tekjur á fyrri helmingi árs voru rúmlega 232 milljarðar og greidd gjöld  tæplega 262 milljarðar króna.

Afborganir lána námu alls um 135 milljörðum króna, þar af um 72 milljarðar innlands. Það er rúmur helmingur upphæðarinnar.

Lántökur ríkissjóðs jukust um nærri 90% og námu lántökur um 235 milljörðum króna. Lántökur erlendis námu um 133 milljörðum króna.

Tekjur vegna sölu sendiherrabústaðar

Í skýrslu um greiðsluafkomu ríkissjóðs segir að í júní hafi verið bókfærðar alls 19,2 milljarðar króna tekjur vegna söluhagnaðar sem var ekki reiknað með í fjárlögum. Tekjurnar eru tilkomnar vegna sölu sendiherrabústaðar í London og vegna samkomulags um ráðstöfun eigna Avens B.V. í Lúxemborg.

Skatttekjur á fyrstu sex mánuðum ársins námu 195,8 milljörðum króna. Það er 9,9% hækkun að nafnvirði á milli ára og 1,4% undir tekjuáætlun fjárlaga.

Staðgreiðsla á tekjuskatti og útsvari nam 80,1 milljarði króna í febrúar-júní og er það 3,7 milljörðum meiri staðgreiðsla en á sama tíma árið 2009. Þar af rann sem tekjuskattur í ríkissjóð 38,7 milljarðar. Segir í skýrslunni að hér sé um að ræða skil á tekjuskatti og útsvari í staðgreiðslukerfinu af launum fyrstu fimm mánuði ársins, sem eru fyrstu launamánuðir eftir breytingar á skattkerfinu um síðustu áramót.