Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa fjárfestar áhyggjur af því hvernig bönkum og fjármálafyrirtækjum muni vegna á fjórða ársfjórðungi þessa árs sem brátt er á enda.

Vogunarsjóðsstjórinn Bernand Madoff, sem handtekinn var vegna gruns um fjármálamisferli um helgina, hefur einnig nokkur áhrif á markaði en handtaka hans, og mögulegt misferli, hefur að sögn Bloomberg valdið miklum óróa á markaði.

„Þarna er ormadós sem enginn veit hvað inniheldur og ég er ekki viss um að við viljum láta opna hana,“ sagði ónefndur viðmælandi Bloomberg.

„Það er óvíst hvað hann hefur grætt á mögulegu svindli sínu, hvort hann var einn í því, hvort einhverjir hafi vitað að því, hvort aðrir hafi stundað svipaða hluti án þess að vera í samráði við Madoff og síðan getur auðvitað verið að maðurinn sé saklaus en þá hefur bandarísk fjármálalíf engu að síður skaddast vegna handtökunnar.“

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,1%, Dow Jones um 0,75% og S&P 500 um 1,3%.