„Ég opnaði Hanann í Skeifunni fyrir rúmlega tíu árum síðan og þá var hugmyndin aldei að opna nýjan stað, en síðan hafa verið að koma fram áskoranir frá viðskiptavinum vestur í bæ því fólk nennir ekki að keyra í Skeifuna út af traffíkinni. Ég er að fá viðskiptavini alls staðar annars staðar að úr bænum enda auðvelt aðgengi fyrir bíla og þar með fólk í Skeifuna sem er alltaf að verða meiri og meiri matarmiðstöð. En Vesturbæingarnir hafa ekki verið að koma því umferðin stoppar þá af,“ segir Sigurður B. Sigurðsson, eigandi veitingastaðarins Hanans, sem nú opnar nýjan Hana út á Granda.

„Nýi staðurinn er á besta stað á milli pitsustaðarins Flateyjar og ísbúðarinnar Valdísar, en þarna var í um fimmtíu ár fyrirtækið Klif sem þjónustar sjávarútveginn. Matseðillinn verður eins, en húsnæðið er ólíkt minna, svo við verðum með háborð og kolla og náum mögulega þannig meira flæði. Líklega verður meira af ferðamönnum inn af götunni, en í dag eru um 95% af viðskiptavinunum í Skeifunni Íslendingar, en einnig fáum við vonandi meira „take-away“ á kvöldin. Til að byrja með verður opnunartíminn sá sami og í Hananum í Skeifunni, en ég skoða kannski eftir nokkra mánuði að vera með opið lengur. Ég var fyrst alltaf með lokað á sunnudögum en viðskiptavinirnir ýttu mér út í að vera með opið þá líka og nú er ég að elta þá vestur í bæ.“

Sigurður viðurkennir að það sé engin tilviljun að bæði nýi staðurinn og sá gamli voru opnaðir þegar hægst hafi verulega á í hagkerfinu. „Ég var búinn að góna á þessa staðsetningu í töluverðan tíma, en það var of dýrt, en síðan breyttist umhverfið á markaðnum fyrir um ári síðan, bólan sprungin og þetta orðið geranlegt loksins. Fólk komst niður á jörðina, svo núna líkt og 2009, er ég á fínum tíma til að gera langtíma leigusamning,“ segir Sigurður sem áður hefur komið að matsölurekstri.

„Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á mat, sérstaklega fljótum og góðum, en ég opnaði Pasta Basta á sínum tíma á Klapparstígnum, en svo í millitíðinni var ég með fyrirtæki sem þjónustaði bílaleigurnar en þegar það datt niður þarna í hruninu þá myndaðist tækifæri hjá mér til að gera það sem mig hafði alltaf langað að gera. Það hefur verið mikill kjúlli í mér allt mitt líf, en kjúklingamarkaðurinn hér á landi hefur verið lengi mjög einsleitur.

Ég hafði kynnst suður-afrísku veitingahúsakeðjunni Nandos í Englandi, og varð alveg háður, eins og sumir eru háðir Hananum. Ég viðurkenni alveg að hugmyndin að staðnum og hugmyndafræðin kemur þaðan. Þar er alltaf góð stemning, léttleiki, skemmtilegar auglýsingar og svo er ég með sósurnar frá þeim. Upphaflega hafði ég verið í samskiptum við þá 2006 og 2007 um að opna hér á landi stað í þeirra nafni, en svo kom tækifærið eftir hrun að gera þetta með sósunum frá þeim, en vegna hruns krónunnar var ógerlegt að vera undir þeirra merkjum.“

Aldrei auglýst en gekk strax vel

„Ég hef aldrei auglýst út á við, viðskiptavinurinn hefur alveg séð um það sjálfur. Reksturinn hérna í Skeifunni fór að ganga mjög vel strax, ég þurfti ekki að fara í gegnum neina brekku í því, en svo eftir svona tveggja ára rekstur þá tóku viðskiptin mikinn kipp og hafa haldist góð fram á daginn í dag,“ segir Sigurður B. Sigurðsson, stofnandi og eigandi Hanans.

„Sumir viðskiptavinir koma mörgum sinnum í viku, og ég eflaust grætt á aukinni áherslu á hollustu, en við djúpsteikjum ekki, heldur gufusjóðum allan kjúklinginn og síðan er hann grillaður fyrir framan viðskiptavininn.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslenskir hluthafar kísilvers hafa fært niður virði hlutafjár síns í verinu.
  • Íslenskt lyfjafyrirtæki stefnir á skráningu á erlendan markað á næsta ári.
  • Hugmyndir um nýtt íslenskt flugfélag eru að renna út á tíma ætli það að ná ásættanlegri nýtingu yfir sumarmánuðina.
  • Efnahagsáhrif kórónaveirunnar á heimsbúskapinn eru metin á 34 þúsund milljarða króna.
  • Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, er í ítarlegu viðtali.
  • Hugbúnaðarfyrirtækið OZIO aðstoðar íslensk fyrirtæki að sjálfvirknivæðast.
  • Kristján Hjálmarsson, sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta, er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn og Týr eru á sínum stað, auk Óðins.
  • Sérblað um Viðskiptaþing Viðskiptaráðs fylgir Viðskiptablaðinu.