„Íslenski skattgreiðandinn á fáa vini en fjölmarga óvildarmenn sem nýta hvert tækifærið sem gefst til að sækja að honum. Þeir stjórnmálamenn sem reyna að taka upp hanskann fyrir skattgreiðandann - gerast talsmenn hans - eru úthrópaðir og sumir sakaðir um að vera „óbilgjarnir öfgasinnar“.“

Á þessum orðum hefst grein eftir Óla Björn Kárason, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, sem hann ritar í Morgunblaðið í dag, en hann tók sæti á þingi í gær sem varamaður Vilhjálms Bjarnasonar.

Í grein sinni tekur Óli Björn til varna fyrir íslenska skattgreiðandann, sem hann segir reyna af vanmætti að verjast krumlu hins opinbera sem seilist æ dýpra í vasa hans. Barátta skattgreiðandans fyrir að fá að ráðstafa sjálfur sem mestu af sjálfsaflafé sínu sé hins vegar ójöfn, þar sem kröftugir sérhagsmunahópar hvetji skattmann áfram og þeir séu studdir af öflugum fjölmiðlum.

Litið á aðventuna sem uppskeruhátíð

Óli Björn segir hættulegasta tímann fyrir skattgreiðandann vera undir lok hvers árs. Á aðventunni fari sérhagsmunahópar á stjá til að tryggja sína hagsmuni við afgreiðslu fjárlaga komandi árs. Þar sé krafan ekki um lægri skatta, lægri útgjöld eða aðhald og sparnað í ríkisrekstri. Ákallið sé alltaf á aukin útgjöld sem skattgreiðandinn skuli með góðu eða illa standa undir.

„Á aðventunni er íslenski skattgreiðandinn því fremur einmana, hrakinn og barinn. Sérhagsmunahóparnir hafa alltaf litið á aðventuna sem sérstaka uppskeruhátíð og að eðlilegt sé að reikningurinn sé sendur til þess sem litlar varnir hefur,“ segir Óli Björn að lokum.