Hanna Birna Kristjánsdóttir sigraði með miklum yfirburðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær en hún hlaut um 74% greiddra atkvæða í 1. sæti. Hanna Birna fékk 5.438 atkvæði í 1. sæti.

Hanna Birna hlaut einnig flest greidd atkvæði í prófkjörinu eða samtals 6.758. Það þýðir að rúmlega 92% þeirra sem greiddu atkvæði í prófkjörinu kusu hana í eitthvert af átta efstu sætunum.

Illugi Gunnarsson lenti í öðru sæti með 2.695 atkvæði í 1.-2. sæti en hann sóttist líkt og Hanna Birna eftir 1. sæti á lista flokksins. Illugi fékk 1.259 atkvæði í 1. sæti eða 17%.

Pétur H. Blöndal lenti í þriðja sæti með 3.004 atkvæði í 1.-3. sæti og Brynjar Níelsson lenti í fjórða sæti. Þegar fyrstu tölur voru birtar var Brynjar í 3. sæti en Pétur komst fljótt yfir hann. Lengi vel var nokkuð mjótt á munum og þegar lokatölur voru birtar var Brynjar aðeins 55 atkvæðum frá því að ná þriðja sætinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sóttist eftir 2. sæti, lenti hins vegar í 5. sæti prófkjörsins sem verða að teljast honum vonbrigði. Þá lendi Birgir Ármannson í 6. sæti en hann sóttist einnig eftir 2. sæti.

Alls voru gild atkvæði 7.322 talsins og sætin raðast þannig:

  1. Hanna Birna Kristjánsdóttir – 5.438 atkvæði í 1. sæti
  2. Illugi Gunnarsson – 2.695 atkvæði í 1. - 2. sæti
  3. Pétur H. Blöndal – 3.004 atkvæði í 1. - 3. sæti
  4. Brynjar Níelsson – 3.722 atkvæði í 1. - 4. sæti
  5. Guðlaugur Þór Þórðarson – 3.503 atkvæði í 1. - 5. sæti
  6. Birgir Ármannsson – 3.196 atkvæð í 1. - 6. sæti
  7. Sigríður Á. Andersen – 3.894 atkvæði í 1. - 7. sæti
  8. Áslaug María Friðriksdóttir – 4.413 atkvæði í 1. - 8. sæti
  9. Ingibjörg Óðinsdóttir – 2.950 atkvæði
  10. Elínbjörg Magnúsdóttir – 2.848 atkvæði

Aðrir frambjóðendur hlutu færri atkvæði.